Fæðingarpartý

Í vor verða 7 ár síðan ég fæddi mitt fyrsta inn í þennan heim. Hann er fæddur á fæðingardeild landspítalans og ég get svosem ekki yfir neinu kvartað í sambandi við fæðingarupplifunina sem slíka... Hann fæddist áfallalaust og við fórum heim hálfum sólarhring seinna.

Þegar ég var svo ólétt í annað sinn ákvað ég að gera þetta öðruvísi. Ég ákvað að fæða eins og mér hentaði, á minn hátt. Ég fór í þær mæðraskoðanir sem mér hentaði og talaði við ljósmóður sem ég valdi mér sjálf.

Þegar kom að fæðingunni ákvað ég að fæða heima, í vatni og án kemískra deyfinga. Það að ég hafi valið að gera þetta svona þýðir ekki að ég dæmi nokkra konu fyrir að velja það að fæða á sjúkrahúsi, eða fyrir að velja að notast við deyfingar í fæðingunni. Það bara hentaði mér ekki og því ákvað ég að velja aðra leið.

Ég er almennt litin hornauga þegar fólk heyrir hvernig ég ákvað að fæða dótur mína og ekki verða viðbrögðin minni þegar ég segi þeim að hún hafi verið í einhver tæp 3 ár á brjósti. Það er eins og að fyrst ég fæddi heima, í vatni, deyfingarlaust, hafi átt langa og farsæla brjóstagjöf, hafi borið barnið mitt um í sjali frekar en í barnavagni og að þau sofi upp í hjá mér eins og þeim henti, að þá hljóti ég að vera algjörlega á móti því að einhver hugsi öðruvísi en ég.

Það kemur mér ekki við ef konur velja stutta brjóstagjöf, eða hreinlega geta ekki haft börnin lengur á brjósti (hvaða ástæður sem liggja þar að baki), eða vilja keisaraskurði eða hvað sem þeim dettur í hug.

Ef ég fæ að eignast fleiri börn mun ég svo sannarlega fæða aftur heima. Í þetta sinn mun ég bjóða þeim sem vilja að koma í fæðingarpartý. Vera með mér í fæðingunni, elda fyrir mig góðan mat til að borða þegar henni er lokið, setja í þvottavél fyrir mig svo ég eigi hrein föt eftir fæðinguna og henda því sem óhreinkast í fæðingunni sjálfri í vél.
Vúhú fæðingarpartý... hver vill koma?

þessi færsla er skrifuð eftir að ég las þessa leiðinda grein. http://www.visir.is/deyfingar-fyrir-aumingja/article/2007108280038


ok, tvennt

þetta ættu að vera tvær færslur, en þar sem ég er svo fjölhæf er ég að hugsa um tvennt í einu.

Í fyrsta lagi, þá fékk Högni endurskinsmerki með sér heim úr skólanum. Allt gott og blessað með það, ef þetta væru ekki Arionbanka endurskinsmerki, í Arionbankaumbúðum merktum Arionbanka.

Hann er í fyrsta bekk.
Jú það fylgdi bæklingur með, frá skátahreyfingunni... Með sömu áróðursmynd og auglýsingar Arionbanka.

Er það bara ég eða þykir fleirum siðlaust að nota börn í fyrsta bekk í svona auglýsingaáróður?

Hitt...

Ég hef lengi velt fyrir mér málinu með Sveppa og Villa og Góa? Þeir eru fertugir menn. Sem þykjast og segjast vera sex ára, eiga sex ára vini og fertugar mæður, en eru samt sem áður þeir sjálfir... Sem er fertugir menn...
Hversu weird og creepy er það?


Of sein

Ég var að tala við myndarlegan mann í alla nótt. Hann var vel máli farinn og skemmtilegur. Hann reytti af sér brandarana og var ógurlega alúðlegur í alla staði. Hann spurði mig hvort ég vildi giftast honum og taldi upp alla kosti sína í belg og biðu. Ég man að hann sagðist alltaf elda og þrífa og þætti gaman að passa börn á meðan konan væri á barnum.

Mér leist auðvitað alveg ljómandi vel á þessar tillögur hans og sagði honum að áður en ég myndi giftast honum þyrfti hann að vakna og taka krakkana til í skólann. Smyrja nesti, finna föt, greiða hár, bursta tennur og þetta allt. Hann var meira en til í það.

Ég hugsaði mér því gott til glóðarinnar og pakkaði mér enn betur inn í sængina og beið eftir því að fá morgunkoss og heyra orðin "sofðu bara áfram ástin mín, ég skal sjá um krakkana"... Því miður heyrði ég bara suðið í símanum og eftir að hafa ýtt fjórum sinnum á snooze þurftum við að stökkva á fætur og drífa okkur meira en góðu hófi gegndi til að drengurinn kæmi nú á réttum tíma í skólann.

Ég vil því hér með vara alla kvenþjóðina við. Ef Lujack úr Guiding Light lofar ykkur öllu fögru... Þá er ykkur að öllum líkindum að dreyma.

*andvarp*


AJ á barnum

Ég sat að sumbli, einu sinni sem oftar, við barinn á Prikinu. Eins og gengur þegar kona þjórar bjóra í góðum félagsskap þurfti ég að nota snyrtinguna. Ég slagaði upp tröppurnar og sá að snyrtingin var upptekin svo ég tók mér stöðu upp við vegginn og beið.

Þá kom upp að mér stúlka sem heilsaði mér. Ég þekkti hana ekki strax en hún kynnti sig og þá mundi ég að við höfðum setið saman í hússtjórnarskólanum í Reykjavík hér um árið.

Við fórum að spjalla, svona small-talk bara, "hvað ert þú að gera?" "hvað er að frétta" og þetta venjulega. Hún er í þjóðfræði og einhleyp. Sjálf hef ég tekið eina önn í klæðskeranámi við IR, klárað stúdentspróf, tekið fjölmargar einingar í finnsku við HÍ, einn vetur í kennslufræðum, annan vetur í grasalækninganámi í Danmörku, unnið á börum og kaffihúsum, skipulagt borgarafundi og svo nú síðast lært stjórnmála-og kynjafræði.

Svo á ég tvö börn og er tvískilin...

Grey stúlkan vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið, starði á mig opinmynnt og stamaði "jahá"

Til allrar hamingju opnaðist hurðin á snyrtingunni rétt í þann mund sem þögnin fór að verða vandræðaleg svo ég gat stokkið inn.

Þegar ég svo var búin að pissa kastaði ég á hana stuttri kveðju, stökk aftur niður á barinn og drekkti sorgum mínum enn frekar...


Búkonu-leg?

Ég hef nú þegar uppgötvað fimm búkonuhár. Tvö eru á hálsinum og hin þrjú á hökunni. Eitt undir hvorum kjálka og eitt beint niður úr miðri hökunni.

Ég plokka þau alltaf, því einhverra hluta vegna fara þau í taugarnar á mér. Ég á það samt til að gleyma því að fjarlægja þessi hræðilegu útlitslýti (aðallega samt vegna þess að ég sé þau ekki nema með miklum æfingum) og þá finn ég þau iðulega þegar ég er að gera eitthvað ógurlega merkilegt, þar sem búkonuhár eru einkar óviðeigandi.

Þegar ég hef einu sinni fundið eitt þessara fimm hára verður ekki aftur snúið. Þá hugsa ég tæplega um annað þar til hárið hefur verið fjarlægt. Ég var einu sinni alltaf með plokkara í vasanum, en eftir að hafa oftar en góðu hófi gegnir stungið oddinum á honum undir fingurneglurnar þegar ég stakk höndunum í vasann, ákvað ég að það væri ekki gott moove. Fyrir utan það að ég hefði þurft að hafa plokkara í hverri yfirhöfn og hverju veski. Það væri dýrt sport fyrir fimm hálf-ósýnileg hár sem þarf að plokka hálfsmánaðarlega.

En vegna þessara plokkara vandkvæða á ég það til að uppgötva þessi óvelkomnu hár akkúrat þegar ég er hvað lengst frá viðeigandi verkfæri til verksins. Ég t.d. hef þann leiða ávana að leita að hárum með fingurgómunum á þeim stöðum sem ég býst við þeim rétt áður en ég á að stíga í pontu og halda fyrirlestur, eða taka viðtal við einhverja merkilega manneskju.

Já eða hitta tengdafjölskyldu í fyrsta sinn.
Oh ég var bókað með ÖLL FIMM búkonuhárin öll þau skipti sem ég hitti nýja tengdaforeldra..

Ætli það sé þess vegna sem þeim er svo illa við mig?

Já og ég komst að því í dag að Högni kann að brjóta origami bolla! Og Elfur kann alla stafina... Ég hef enn ekki náð að læra margföldunartöfluna sjálf. Þau eru strax komin frammúr mér


Um bloggið

Anna Jóna Heimisdóttir

Höfundur

Anna Jóna Heimisdóttir
Anna Jóna Heimisdóttir
stjórnmála- og kynjafræðinemi.

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband